laugardagur, maí 08, 2010

Halló halló

Við erum enn á lífi hér í UK. Alveg að koma sumar og alles.

Um síðustu helgi fórum við til London, var voða gaman eins og allaf. Ég þurfti að fá nýtt vegabréf og átti því tíma í sendiráðinu á föstudeginum. Tók mér frí í vinnunni frá kl 11. Tók strætó frá vinnunni og til Winchester sem er svo sem ekki í frásögu færandi nema hvað að ég fékk hjartaáfall yfir verðinu! Hvað haldiði að það kosti í strætó? Þetta er ca 15 mín strætóferð og fyrir það mátti ég punga út 3,50 pundum eða 700 kr! Fannst það vera rán um hábjartan dag. Ég hef svo sem ekki tekið strætó á Íslandi í nokkur ár en síðast þegar ég vissi kostaði einhvern 220 kall fyrir 1 far. Nóg um það, frá Winchester tók ég svo lestina til London (næstum 6000 kall fram og til baka). Sendiráðið er í Knightsbridge ásamt öllum hinum sendiráðunum og Gucci, Prada félögum. Það tók ekki nema ca korter að redda einu vegabréfi. Skella af mynd (bannað að brosa... hvað er það?) og kvitta undir á svona bankadæmi sem maður skrifar eins og maður sé 5 ára. Verð samt að segja að það tók ekki nema 5 daga áður en vegabréfið var komið frá Íslandi og innum dyrnar hjá okkur! Frekar gott... maður myndi sennilega þurfa að fá flýtimeðferð ef maður væri á Íslandi!!

Finnst sendiráðið var í Knightsbridge þá varð maður náttúrulega að kíkja aðeins í Harrods í leiðinni :) Svo hélt ég á hótelið, tókst samt að villast og tók því auka hálftíma göngutúr... allt af því að ég fór útúr lestarstöðinni á öðrum stað en venjulega. En fann hótelið samt að lokum og þar var rosa flott. David kom svo með lestinni seinna um kvöldið eftir að hann var búinn að þjálfa. Fórum útað borða og löbbuðum útum allt um kvöldið. Fórum svo morguninn eftir á Tate Britain, hittum eina vinkonu í hádeginu og borðuðum á geðveikum tælenskum stað. Löbbuðum meira útum allt. Kíktum í allar húsgagnabúðirnar á Tottenham Court Road... David til mikillar gleði. Fundum líka vafasama hlutann af kínahverfinu... alveg óvart sko! :) Svo byrjaði þessi líka mígandi rigning þannig að við forðuðum okkur í nokkrar búðir, borðuðum og héldum svo í átt heim. Vorum búin að vera að spá í að fara á söngleik en fengum enga spennandi miða þannig að það verður gert fljótlega.

Svo var ég á námskeiði í síðustu viku með Toby Hall en hann kenndi okkur í Perth. Þetta var mjög fínt námskeið. Ekkert nýtt en mjög góður reminder fyrir hitt og þetta. Alltaf gott að fara á námskeið inná milli þar sem er ekkert nýtt og maður er bara nokkuð vel með á nótunum. Þarna kom sér vel að vera launþegi, var á fullum launum á námskeiðinu auk þess sem vinnan borgar fyrir námskeiðið líka! Kvarta ekki yfir því. Námskeiðið var haldið á stærsta NHS spítalanum í Southampton. Það var frekar furðulegt að labba inn um dyrnar verðu að segjast. Í andyrinu voru svona eins og 15 búðir (myndi teljast verslunarmiðstöð á Íslandi enda álíka stórt og Mjóddin). Þarna voru sem sagt fatabúðir, skartgripabúð, gjafavöruverslun, risastórt WHSmith, alls konar sérvöruverslanir og svo kaffihús, Burger king og fleira í þeim dúr! Svo hófst leitin að sjúkrajálfunardeildinni sem fannst svo eftir ca 15 mín niðrí kjallara en ekki hvað. Þarna vinna um 120 sjúkraþjálfarar og sjúkraþjálfunardeildin kannski 2x stærri en á Borgarspítalanum. Þeir eru með sundlaug sem er á stærð við heitan pott og kannski hægt að koma 2 sjúklingum í einu. En það voru ágætir tækjasalir og alls konar græjur svo sem. Ég er samt enn þá aum hér og þar eftir þetta námskeið, maður fann rosalega fyrir því hvað handtökin hjá fólkinu voru ekkert sérstaklega pro, alveg eins og í Ástralíu þá töluðum við öll um hvað það var mikill munur á handtökunum hjá öllum í byrjun og í lokin. En mér sýndist á öllum að svona þessi almenni sjúkraþjálfari í NHS sé ekkert voða mikið í bekkjavinnu heldur meira svona allir í æfingar dæmi.

Annars er ég orðin frekar leið á minni vinnu verður að segjast, var ekki alveg að nenna þessu þegar ég kom aftur í vinnuna eftir vikufrí. Það er akkúrat enga vinnu að fá hér á þessu svæði sem er eitthvað spennandi, maður þarf að fara til London til þess. David er hins vegar búin að fá ýmis tilboð frá skólanum til að vera áfram og eitthvað... Sjáum til hvað gerist, erum svona að spá hvað við gerum í haust búsetulega séð. Ef einhvern vantar íþróttakennara í vinnu á Íslandi má sá hinn sami láta mig vita:)

Læt þetta duga í bili enda orðin algjör langavitleysa!

Bið að heilsa ykkur, knús
Guðný

Engin ummæli: